Erlent

Egypskir læknar kenna stjórnvöldum um dauða félaga sinna

Kjartan Kjartansson skrifar
Heilbrigðisstarfsmaður á sjúkrahúsi í Kaíró rýnir í röntgenmynd af lungum. Kórónuveirufaraldurinn er ekki í rénun í Egyptalandi og læknar varar við því að heilbrigðiskerfið gæti kiknað undan álagi.
Heilbrigðisstarfsmaður á sjúkrahúsi í Kaíró rýnir í röntgenmynd af lungum. Kórónuveirufaraldurinn er ekki í rénun í Egyptalandi og læknar varar við því að heilbrigðiskerfið gæti kiknað undan álagi. Vísir/EPA

Dauði lækna í kórónuveirufaraldrinum er á ábyrgð egypskra heilbrigðisyfirvalda, að sögn þarlendra læknasamtaka. Þau saka yfirvöld um vanrækslu og vara við því að heilbrigðiskerfið gæti kiknað undan álagi.

Nítján læknar eru látnir vegna kórónuveirusýkingar og 350 aðrir hafa smitast, að sögn samtaka egypskra lækna. Ástæðuna segja þau skort á hlífðarbúnaði og sjúkrarúmum fyrir sýkt starfsfólk, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Heilbrigðisráðherrann hafnar gagnrýninni og fullyrðir að nægur búnaður sé til staðar, heilbrigðisstarfsfólk hafi fengið bestu meðferð sem kostur var á. Hann þrætir einnig fyrir tölu látinna lækna og segir þá í raun vera ellefu.

Hátt í átta hundruð manns hafa látið lífið í Egyptalandi til þessa og um 18.000 smit hafa greinst. Sóttvarnasjúkrahús eru sögð við það að fyllast og að engin merki sé um að faraldurinn sé í rénun.

Læknasamtökin gáfu frá sér yfirlýsingu sína eftir að Walid Yehia, 31 árs gamall læknir, lést úr Covid-19, sjúkdómnum sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur. Ekki var pláss til að leggja hann inn á sóttvarnaspítala í höfuðborginni Kaíró.

„Heilbrigðisráðuneytið hefur skyldu gagnvart læknum sem fórna lífi sínu á framlínunni í að verja öryggi heimalandsins,“ segja samtökin. Yfirvöld verði að veita þeim nauðsynlegan hlífðarbúnað og skjóta læknismeðferð ef þeir veikjast við störf sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×