Erlent

Birta nær­myndir af hala­stjörnu úr öðru sól­kerfi

Kjartan Kjartansson skrifar
HiRISE-myndavél MRO-geimfarsins á braut um Mars tók þessa nærmynd af halastjörnunni 3I/Atlas 2. október 2025. Hún var þá í um þrjátíu milljón kílómetra fjarlægð frá rauðu reikistjörnunni.
HiRISE-myndavél MRO-geimfarsins á braut um Mars tók þessa nærmynd af halastjörnunni 3I/Atlas 2. október 2025. Hún var þá í um þrjátíu milljón kílómetra fjarlægð frá rauðu reikistjörnunni. NASA/JPL-Caltech/University of Arizona

Nærmyndir sem geimför á og við Mars tóku af halastjörnu sem kemur frá öðru sólkerfi voru birtar í gær. Halastjarnan er aðeins þriðja fyrirbærið sem fundust hefur í sólkerfinu sem staðfest er að eigi sér uppruna utan þess.

Stjörnufræðingar komu fyrst auga á halastjörnuna 3I/Atlas í sumar. Ferill hennar bendir til þess að hún komi úr öðru sólkerfi, líklega mun eldra en okkar.

Halastjarnan þaut fram hjá Mars í síðasta mánuði. Bæði bandaríska geimvísindastofnunin NASA og evrópska geimstofnunin ESA notuðu tækifærið og beindu myndavélum könnunarfara sinna á yfirborð reikistjörnunnar og þeirra sem eru á braut um hana að halastjörnunni.

NASA birti nokkrar slíkar myndir í gær, meðal annars frá Marskönnunarbrautarfarinu (MRO) sem náði sem náði einum bestu nærmyndunum af gestinum. Myndir MAVEN-brautarfarsins í útfjólubláu ljósi eiga að hjálpa til við að greina efnasamsetningu halastjörnunnar.

Útfjólublá mynd MAVEN-geimfarsins af vetnisfrumeindum í hala 3I/Atlas. Halastjarnan sjálf er dökkleitari blái liturinn lengst til vinstri.NASA/Goddard/LASP/CU Boulder

Halastjarnan er sýnileg frá jörðinni með hand- eða stjörnusjónauka fyrir dögun. Þegar hún fer næst jörðinni verður hún í um 269 milljón kílómetra fjarlægð um miðjan desember. Hún þýtur svo út úr sólkerfinu og snýr aldrei aftur þangað.

3I/Atlas er sérstaklega hraðskreið halastjarna og er hún talin eiga uppruna sinn í sólkerfi sem er mun eldra en sólkerfið okkar. Mögulega er hún hafa myndast áður en sólin og jörðin urðu til.

Mynd af hala 3I/Atlas sem tekin var frá Ítalíu í gær.AP/Giaunluca Masi

För halastjörnunnar í gegnum sólkerfið hefur ekki síst vakið athygli fyrir sakir ýmissa sérvitringa sem hafa fabúlerað um að hún gæti í raun verið geimskip utan úr geimnum. Fjarstæðukenndar tilgátur af því tagi hafa dregið athygli frá hversu merkileg halastjarnan er sem aðeins eitt örfárra fyrirbæra sem vitað er með vissu að komi utan sólkerfisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×