Breska lögreglan telur að Dominic Cummings, einn nánasti ráðgjafi Boris Johnson forsætisráðherra, gæti hafi gerst sekur um „minniháttar“ brot á fyrirmælum yfirvalda um að fólk héldi sig heima vegna kórónuveirufaraldursins. Hún ætlar þó ekkert að aðhafast í málinu.
Mál Cummings hefur valdið miklu fjaðrafoki eftir að í ljós kom að hann ferðaðist hundruð kílómetra frá London til heimilis foreldra sinna í Durham þegar eiginkona hans var með einkenni Covid-19 og fyrirmæli yfirvalda kváðu á um að fólk ætti að halda sig heima.
Johnson og fleiri íhaldsmenn hafa komið Cummings til varnar en sjálfur hefur ráðgjafinn hafnað öllum kröfum um að hann segi af sér. Einn ráðherra í ríkisstjórninni sagði af sér vegna óánægju með að Johnson hefði ekki rekið Cummings. Mál hans hefur vakið upp spurningar um hvort að aðrar reglur gildi fyrir æðstu ráðamenn en almenning.
Nú hefur lögreglan í Durham komist að þeirri niðurstöðu að Cummings „kunni“ að hafa brotið gegn sóttvarnareglum þegar hann ferðaðist tugi kílómetra frá heimili foreldra sinna í Durham í Barnard-kastala. Hefði lögreglumaður stöðvað Cummings á ferð sinni hefði hann að líkindum bent honum á að snúa aftur til Durham. Lögreglan taldi Cummings ekki hafa brotið reglurnar þegar hann ferðaðist upphaflega frá London til Durham.
Ekki verði gripið til frekari aðgerða gegn Cummings. Lögreglan hafi ákveðið að framfylgja ekki reglunum afturvirkt og ef hún gerði það í máli Cummings sætti hann annarri meðferð en almennir borgarar, að því er kemur fram hjá breska ríkisútvarpinu BBC.
Talsmaður forsætisráðuneytisins sagði að Johnson teldi að Cummings hefði hagað sér á skynsamlegan hátt og að hann teldi málinu lokið.
Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við mögulegum brotum Cummings hafa verið nokkur önnur en þegar Neil Ferguson, einn af ráðgjöfum ríkisstjórnarinnar um kórónuveirufaraldurinn, varð uppvís að því að leyfa kærustu sinni að koma í heimsókn til sín og brjóta þannig fyrirmælin um að fólk héldi sig heima. Ferguson viðurkenndi mistök og sagði af sér. Þá taldi Matt Hancock, heilbrigðisráðherrann, að lögreglan ætti að rannsaka Ferguson. Lögreglan aðhafðist ekkert gegn Ferguson.