Sautján ára piltur, sem grunaður er um alvarlega líkamsárás, mun þurfa að sæta gæsluvarðhaldi til 25. júní næstkomandi. Þegar því lýkur mun pilturinn hafa verið rúma tvo mánuði í haldi.
Pilturinn, sem fæddur er árið 2003, er grunaður um að hafa ráðist að öðrum með hníf og stungið hann í tvígang. Árásin átti sér stað í Breiðholti síðdegis 23. apríl og var fórnarlambið flutt á slysadeild. Daginn eftir var drengurinn úrskurðaður í sex daga gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sem var svo framlengt um mánuð þann 30. apríl.
Drengurinn var settur í einangrun í fangelsi, þrátt fyrir að lög segi að börn undir átján ára skuli ekki sæta gæsluvarðhaldi nema önnur úrræði bjóðist ekki. Í umfjöllun Ríkisútvarpsins á sínum tíma sögðu bæði fangelsismálastjóri og forstjóri Barnaverndarstofu segja sárasjaldgæft að þetta sé gert, en það væri þó ekki brot á lögum eða barnasáttmálanum.
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði hann svo í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald í dag, sem varir til 25. júní. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er drengurinn „vistaður á viðeigandi stofnun“ og að rannsókn málsins miði vel.