Norski tónlistarmaðurinn Alexander Rybak, sem sigraði Eurovision árið 2009 með laginu Fairytale, greindi í dag frá áratugaglímu sinni við lyfjafíkn. Rybak, sem fór í meðferð í byrjun árs, segir fíknisjúkdóminn hafa nær eyðilagt líf sitt.
„Ég hef lifað með leyndarmáli. Ég hef verið háður svefn- og þunglyndislyfjum í ellefu ár. Það var meinlaust til að byrja með en að lokum eyðilagði það næstum líf mitt,“ skrifar Rybak í færslu á Instagram í dag, þar sem hann greinir í fyrsta sinn frá baráttu sinni við fíknina.
Hann kveðst hafa farið í meðferð í janúar og sé nú smám saman að komast aftur til fyrra horfs.
„Pillurnar gerðu mig máttlausan og hræddan síðustu ár. Þær höfðu ekki bara áhrif á heilann í mér heldur líka vöðvana og magann. Þær eyðilögðu sambönd mín við fólk og, sem meira er, þær eyðilögðu næstum lífsvilja minn,“ skrifar Rybak.
Eins og áður segir er Rybak Íslendingum líklega flestum kunnur fyrir að hafa sigrað Eurovision árið 2009 með laginu Fairytale – og þannig haft sigurinn af Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur, sem hafnaði í öðru sæti með laginu Is it True?
Miðað við færslu söngvarans má gera ráð fyrir að glíman við lyfjafíknina hafi byrjað um það leyti sem hann sigraði Eurovision. Rybak tók svo aftur þátt í keppninni árið 2018 og lenti þá í 15. sæti.