Íhaldsmenn í þremur ríkjum þar sem demókratar eru ríkisstjórar hafa komið saman til að mótæla aðgerðum gegn kórónuveirufaraldrinum í gær og í dag. Donald Trump Bandaríkjaforseti hvatti mótmælendurna til dáða á Twitter í dag þrátt fyrir kröfur þeirra stangist á við leiðbeiningar alríkisstjórnarinnar.
Fjöldi ríkja í Bandaríkjunum hafa skipað íbúum að halda sig heima til að takmarka útbreiðslu faraldursins. Sumir hópar íhaldsmanna hafa verið ósáttir við þau fyrirmæli og boðuðu mótmæli í þremur ríkjum í dag, í trássi við tilmæli yfirvalda. Þeir krefjast þess að takmörkunum verði aflétt strax.
Trump virtist lýsa yfir stuðningi við þau mótmæli þegar hann tísti „FRELSIÐ MINNESOTA“, „FRELSIÐ MICHIGAN“ og „FRELSIÐ VIRGINÍU“ í dag. Ríkin þrjú eiga það sameiginlegt að ríkisstjórar þeirra eru demókratar.
LIBERATE MINNESOTA!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) April 17, 2020
Kröfur mótmælendanna sem Trump virðist styðja stangast þó á við ráðleggingar alríkisstjórnarinnar sem hann stýrir. Starfshópur Hvíta hússins kynnti leiðbeiningar um að ríkin ættu að aflétta takmörkunum vegna faraldursins hægt í gær.
Washington Post segir að tístin frá Trump hafi komið rétt eftir að sjónvarpsstöðin Fox News sendi út umfjöllun um hóp sem kallar sig „Frelsum Minnesota“ og skipulagði mótmæli fyrir utan ríkisstjórasetrið þar í dag. Trump ver löngum stundum í að horfa á Fox News.

Slær úr og í um hlutverk ríkisstjóranna
Mótmæli gegn sóttvarnaráðstöfunum í Michigan í gær trufluðu umferð í miðborg ríkishöfuðborgarinnar Lansing. Þar kom hópur fólks með rauður derhúfur með slagorði Trump forseta áletruðu saman og kyrjaði meðal annars „Læsið hana inni!“ um ríkisstjórann Gretchen Whitmer sem Trump hefur ítrekað gagnrýnt undanfarna daga. Whitmer sagði að mótmælin ykju hættuna á að framlengja þyrfti tilmæli um að fólk héldi sig heima með því að gera stóran hóp fólks útsettan fyrir smiti.
Skilaboð Trump um sóttvarnaaðgerðirnar hafa sveiflast verulega dag frá degi. Fyrr í vikunni sagðist hann hafa „algert vald“ um hvenær aðgerðum yrði aflétt í einstökum ríkjum þrátt fyrir að hann hafi það ekki. Í gær varpaði hann allri ábyrgð á aðgerðunum á ríkisstjóra einstakra ríkja. Í dag reyndi hann svo að hvetja til mótmæla gegn aðgerðum ríkjanna.
Ríkisstjórar úr báðum flokkum hafa sagst ætla að fara varlega í að aflétta takmörkunum í dag. Texas varð fyrsta ríkið til að kynna hvernig byrjað yrði að slaka á sóttvarnaraðgerðunum. Sum ríkin hafa þó áhyggjur af því að til að hægt sé að koma þjóðlífinu aftur í hefðbundið horf þurfi meiriháttar skimum fyrir veirunni að fara fram. Það sé ekki hægt án aðstoðar alríkisstjórnar Trump.
Sjálfur hefur Trump vísað á ríkisstjórana sjálfa um skimun fyrir veirunni líkt og hann hefur einnig gert um nauðsynlegan búnað eins og öndunarvélar og hlífðarbúnað fyrir heilbrigðisstarfsfólk.