Formaður Bændasamtakanna segist aldrei hafa séð eins margar álftir á túnum Suðurlands, eins og núna í vor. Hann spyr hvernig fari með gróður á hálendinu þegar fuglamergðin haldi þangað til beitar. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Sauðfjárbændur sitja undir ámæli fyrir að beita viðkvæma afrétti á gosbelti landsins. En það er ekki bara búfé sem bítur grös á hálendi Íslands á sumrin, það gerir einnig fiðurfé; stórir fuglar eins og gæsir og álftir.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, sem sjálfur býr í Grímsnesi, segir gríðarlega álftamergð hafa verið á öllu Suðurlandi núna í vor.
„Þar eru bara öll tún, sem eitthvað eru byrjuð að grænka, þau eru þakin af álftum. Og þetta virðist vera geldfugl í stórum stíl,“ segir Gunnar.

Álftirnar bíta það mikið gras á túnum bænda að þeir líta á þær sem ófögnuð og vilja helst fækka þeim.
„Og ég segi bara; þessir fuglar fara væntanlega inn á hálendið, núna þegar grösin vaxa hraðar og verða hærri.
Álftin spyr ekkert um það hvort það er einhver beitarstýring eða eitthvað þessháttar hlutir í gangi. Þær fara bara þangað sem grösin eru sæmileg.
Og þetta er ekkert smávegis af fugli. Ég hef bara aldrei á ævinni séð jafnmikið af fugli,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Sjá einnig: