Innlent

Upplýsingafundur í Ráðherrabústaðnum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fer með stjórn fundarins.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fer með stjórn fundarins. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur boðað til upplýsingafundar í Ráðherrabústaðnum í dag. Hið svokallaða þríeyki, Alma Möller landlæknir, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, verður á fundinum, en Katrín fer með stjórn hans.

Um er að ræða fyrsta upplýsingafundinn þar sem farið verður yfir stöðuna með tilliti til kórónuveirunnar hér á landi síðan 25. maí.

Meðal þess sem fjallað verður um á fundinum er nánari útfærsla opnunar landamæra. Þann 15. júní verður ferðamönnum hleypt til landsins, að því gefnu að þeir verði skimaðir fyrir kórónuveirunni á Keflavíkurflugvelli.

Í samtali við Vísi sagði Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, að fundurinn yrði á aðeins öðrum nótum en þeir daglegu upplýsingafundir sem Almannavarnir og Landlæknisembættið stóðu fyrir þegar faraldurinn stóð sem hæst hér á landi. Meira yrði fjallað um þá hluti sem tengjast inn í stjórnmál landsins.

Fundurinn í Ráðherrabústaðnum hefst klukkan 14 í dag og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Vísi og hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×