Erlent

Mótmælendur lýsa yfir stofnun fríríkis í Seattle

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Mótmælendur í Seattle hafa tekið yfir þrjátíu og sex þúsund fermetra svæði og lýst yfir stofnun lögreglulauss fríríkis.

Nokkur fjöldi mótmælenda hefur safnast saman í Capitol Hill-hverfi Seattle og vegatálmar verið reistir svo lögregla geti ekki keyrt inn í hverfið. Hið svokallaða fríríki samanstendur af svæðinu í kringum yfirgefna lögreglustöð.

Samkvæmt Seattle Times vilja margir mótmælendur breyta lögreglustöðinni í félagsmiðstöð. Á svæðinu má nú einnig finna minnisvarða um George Floyd, en dauði hans varð kveikjan að mótmælum gegn lögregluofbeldi í hverju einasta ríki Bandaríkjanna.

Mótmælendurnir sem segjast hafa stofnað fríríkið birtu kröfur sínar í gær. Þar er þess meðal annars krafist að stjórnvöld leggi niður bæði lögreglu og sakamáladómstól borgarinnar. Sömuleiðis er farið fram á að horfið verði frá refsistefnu í fangelsismálum og frekar litið til betrunar.

Kshama Sawant, borgarfulltrúi flokks sósíalista í Seattle, mætti á staðinn í gær og flutti ræðu þar sem hún hvatti mótmælendur til dáða.


Tengdar fréttir

Fjölmennustu mótmælin í Washington-borg til þessa

Mótmæli gegn lögregluofbeldi og kerfislægri kynþáttahyggju héldu áfram í mörgum borgum Bandaríkjanna í gær. Þau eru sögð hafa farið að mestu friðsamlega fram. Í Washington-borg mótmælu um tíu þúsund manns í stærstu mótmælunum í borginni til þessa.

Keyrði inn í þvögu mótmælenda og skaut einn

Maður í bandarísku borginni Seattle í Washington-ríki hefur verið handtekinn eftir að hann ók inn í þvögu mótmælenda og skaut minnst einn. Myndband náðist af atvikinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×