Viðskipti innlent

Fyrst íslenskra löggiltra endurskoðenda til að verða með­eig­andi stórs endur­skoðunar­fyrir­tækis er­lendis

Atli Ísleifsson skrifar
Bryndís Símonardóttir.
Bryndís Símonardóttir. FLE

Bryndís Símonardóttir varð um síðustu mánaðamót fyrst íslenskra löggiltra endurskoðenda til að gerast meðeigandi (partner) hjá einum af fjórum stóru endurskoðunarfyrirtækjunum annars staðar en á Íslandi.

Í tilkynningu frá Félagi íslenskra endurskoðenda segir að hin 36 ára Bryndís hafi orðið meðeigandi hjá Deloitte í Danmörku, en hún er löggiltur endurskoðandi bæði í Danmörku og hér heima. Meðeigendur hjá Deloitte í Danmörku eru nú 242.

„Ferlið sem Bryndís gekk í gegnum hófst á kynningu á árinu 2018 fyrir helstu stjórnendum endurskoðunarsviðs Deloitte. Hún var svo valin í meðeigendaferli sem er kallað HPP (High Potential Program), þar sem 20-25 starfsmenn sem stefna að því að verða meðeigendur eru valdir árlega.

Í þessu ferli er fyrst og fremst lögð áhersla á mannlega þáttinn til að styrkja einstaklinginn í stjórnendahlutverkinu, bæði andlega og líkamlega. Þeir sem komast í gegnum þetta ferli leggja fram umsókn um stöðu partners og viðskiptaáætlun sem rökstyður á hvaða forsendum sú ætti að verða niðurstaðan. Eftir yfirferð stýrihóps, kynnti Bryndís viðskiptaáætlun sína fyrir stjórnendum Deloitte. Eftir þá kynningu var niðurstaðan sú að Bryndísi var boðið að verða meðeigandi í fyrirtækinu,“ segir í tilkynningu frá FLE.

Stóru endurskoðunarfyrirtæki heims eru Deloitte, PricewaterhouseCoopers (PwC), Ernst & Young (EY) and KPMG.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×