Innlent

Friðlýsing Goðafoss undirrituð

Andri Eysteinsson skrifar
Frá Goðafossi í dag.
Frá Goðafossi í dag. Vísir/Tryggvi

Friðlýsing Goðafoss, eins vatnsmesta foss landsins, var undirrituð við fossinn sjálfan í dag. Fossinn sem er að finna í Skjálfandafljóti er einn af vinsælustu ferðamannastöðum norðurlands.

Friðlýsingin var undirrituð af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, að viðstöddum sveitarstjórnarmönnum í Þingeyjarsveit, landeigendum, fulltrúum ráðuneytisins, Umhverfisstofnunar, heimafólki og öðrum góðum gestum.

Við athöfnina var boðið upp á ljúfa tóna norðlenska blásarakvintettsins Norðangarra og að henni lokinni var boðið til kaffisamsætis á Fosshóli.

„Í dag friðlýstum við eina helstu náttúruperlu landsins,“ sagði umhverfisráðherra við athöfnina. „Með friðlýsingunni verður komið á skipulegri umsjón með svæðinu með landvörslu og þar með einnig fræðslu og eftirliti. Friðlýsing Goðafoss er afar ánægjulegt skref í náttúruvernd á Íslandi og tryggir að komandi kynslóðir geti notið hans um ókomna tíð.“

Fossinn greinist í tvo meginfossa og nokkra smærri og breytist ásýnd hans eftir vatnsmagni, veðurfari og árstíð. Hæstur er fossinn 17 metrar á hæð og er hann um 30 metrar að breidd.

Nafn fossins er sagt dregið af goðalíkneskjum þeim er Þorgeir Þorkelsson, Ljósvetningagoði, á að hafa varpað í fossinn í kjölfar þess að honum var falið að ná sáttum milli heiðinna manna og kristinna og hann tekið upp nýjan sið fyrir meira en þúsund árum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×