Innlent

Vegagerðin búin að opna fyrstu hálendisleiðir

Kristján Már Unnarsson skrifar
Við gatnamót Kaldadals og Uxahryggja ofan Þingvalla. Báðar þær leiðir hafa núna verið opnaðar.
Við gatnamót Kaldadals og Uxahryggja ofan Þingvalla. Báðar þær leiðir hafa núna verið opnaðar. Mynd/Stöð 2.

Fyrstu hálendisvegirnir hafa nú verið opnaðir umferð. Leiðirnir um Kaldadal og inn á Arnarvatnsheiði sunnanmegin opnuðust í gær og stutt er síðan Kjölur opnaði, að sögn upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, G. Péturs Matthíassonar.

„Þetta er allt í seinna lagi í ár,“ segir G. Pétur.

Hálendiskort Vegagerðarinnar, sem birt var í gær, sýnir að Fjallabaksleið syðri hefur verið opnuð sem og Sprengisandsleið að sunnanverðu alla leið að Laugafelli norðan Hofsjökuls. Leiðir upp á Sprengisand að norðanverðu, úr Skagafirði, Eyjafirði og Bárðardal, eru allar lokaðar.

Frá Sprengisandsleið. Hún er aðeins orðin fær að sunnanverðu.Vísir/Vilhelm.

Einnig er orðið fært inn í Veiðivötn alla leið að Jökulheimum. Þá er búið að opna veginn að Lakagígum.

Á Vestfjörðum eru búið að opna alla fjallvegi, þar á meðal Þorskafjarðarheiði, Kollafjarðarheiði og Steinadalsheiði.

Á Norðurlandi má nefna að Öxarfjarðarheiði er orðin fær og á Austurlandi er búið að opna niður í Loðmundarfjörð frá Borgarfirði eystra.

Hálendiskortið sem Vegagerðin birti í gær gildir frá 12. júní. Sjá má að Kjalvegur er orðinn fær. Ófært er hins vegar inn í Landmannalaugar og Fjallabaksleið nyrðri er lokuð.Kort. Vegagerðin.

Í fyrrasumar opnuðust hálendisvegirnir óvenju snemma. Þannig voru þeir allir orðnir færir í byrjun júlímánaðar en í sumum árum þarf að bíða framundir verslunarmannahelgi eftir að þeir erfiðustu verði færir.

Tekið skal fram að flestir hálendisvegir teljast jeppavegir og margir eru aðeins færir öflugum jeppum, þótt einstaka vegi megi komast með lagni á venjulegum fólksbílum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×