Borgarfulltrúar minnihlutans í Reykjavík kröfðust þess á borgarstjórnarfundi í dag að borgin hætti að þrengja að flugvellinum og að nýju Skerjafjarðarhverfi yrði frestað. Borgarstjóri segir þetta frábært byggingarland og óskynsamlegt sé að fresta uppbyggingu. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.
Sérstaka umræðu um flugvöllinn hóf Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins.
„Ég er að vekja athygli á málinu bara þannig að við séum öll – allir landsmenn – vakandi núna í sumar hvaða myrkraverk er verið að fara í á flugvellinum og á flugvallarsvæðinu. Ég er að vekja landsmenn upp, að við stöndum öll með flugvellinum í Vatnsmýri. Þetta er öryggi okkar allra,“ segir Vigdís.

Marta Guðjónsdóttir fór fyrir tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að fresta nýrri byggð í Skerjafirði. Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, lagði einnig fram bókun um að fresta ætti byggingaráformum í nágrenni flugvallarins þar til hann færi.
„Okkur finnst borgaryfirvöld hafa farið fram með offorsi og hafa leynt og ljóst verið að reyna að loka Reykjavíkurflugvelli,“ sagði Marta.
„Sjálfstæðisflokkurinn hefur reyndar verið klofinn í afstöðu sinni til Skerjafjarðar en mjög breið samstaða um það í borgarstjórn að þetta sé frábært byggingarland með miklum tækifærum og auðvitað verðlaunaskipulag,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

„Það hafa ekki farið fram veðurfarslegar athuganir varðandi það hvaða áhrif ný byggð í Skerjafirði mun hafa á flugöryggi Reykjavíkurflugvallar,“ segir Marta.
„Þetta atriði frá Isavia, þeir eru að leita til hollensku geimferðastofnunarinnar varðandi vindmælingar. Þetta mál er allt í uppnámi,“ segir Vigdís.
„Ef að Isavia telur að það gagni að þeir meti stöðuna fyrir þá, þá er það bara sjálfsagt að fá það upp á borðið,“ segir Dagur.
„Reykjavíkurborg er að verða skaðabótaskyld gagnvart ríkinu vegna þess að það virðist ekki vera neitt samráð við ríkið varðandi þessa uppbygginu í Skerjafirði,“ segir Vigdís.
„Við munum að sjálfsögðu virða hann, í einu og öllu. Sextíu prósent af því landi sem núna er verið að skipuleggja kemur úr þessum ríkissamningi og fjörutíu prósent er borgarinnar. En við munum að sjálfsögðu standa við allt í honum gagnvart ríkinu,“ segir Dagur.
„Þá hefur verið ofþétting byggðar miðsvæðis í Reykjavík. Við eigum nægt landrými í Úlfarsárdal. Við eigum landrými í Geldinganesi og á fleiri stöðum í borginni,“ segir Marta.

„Það er mikill metnaður í þessu af okkar hálfu og við erum að vanda okkur,“ segir Dagur.
-En kemur þá ekki til greina að fresta Skerjafjarðarbyggð?
„Það væri óskynsamlegt. Við þurfum húsnæðisuppbyggingu. Við þurfum að setja verkefni í gang sem eru tilbúin. Líka bara efnahagslífsins vegna.
Þannig að ef að við myndum hrökkva í kút í hvert einasta skipti sem við fengjum athugasemdir við skipulag þá myndi lítið byggjast í Reykjavík,“ svarar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: