Leiknir R. hóf keppni í Lengjudeild karla í fótbolta í sumar á því að vinna 3-1 útisigur á Þrótti R. í Laugardalnum. Í Lengjudeild kvenna vann Grótta 1-0 sigur gegn Fjölni en Haukar og Augnablik skildu jöfn, 1-1.
Hinn efnilegi Vuk Oskar Dimitrijevic, sem FH keypti í vetur frá Leikni en lánaði aftur í Breiðholtið, kom Leikni yfir snemma leiks gegn Þrótti. Daníel Finns Matthíasson jók muninn í 2-0 snemma í seinni hálfleik og Máni Austmann Hilmarsson bætti við þriðja markinu skömmu síðar. Esau Rojo minnkaði muninn fyrir Þrótt seint í leiknum. Þrótturum er spáð fallbaráttu í sumar en Leiknismönnum 4. sæti.
Lokatölur: 1-3 pic.twitter.com/YV4Y0b5tsP
— Leiknir Reykjavík FC (@LeiknirRvkFC) June 19, 2020
Vienna Behnke kom Haukum yfir gegn Augnabliki á 26. mínútu en Birta Birgisdóttir jafnaði metin rétt fyrir hálfleik. Haukum er spáð 2. sæti Lengjudeildarinnar og þar með sæti í efstu deild á næstu leiktíð, en Augnabliki er spáð 5. sæti.
Gróttukonur hófu hins vegar leiktíðina á sigri, 1-0 gegn Fjölni, en Helga Rakel Fjalarsdóttir skoraði sigurmarkið korteri fyrir leikslok. Liðunum er spáð fallbaráttu í sumar; Gróttu 8. sæti en Fjölni 9. sæti.