Skoðun

Auð­mýktin og sið­ferðis­þrekið í önd­vegi

Kristín S. Bjarnadóttir skrifar

Ég er Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands afar þakklát fyrir að gefa kost á sér áfram. Hann bar með sér ferskan blæ og setti strax sinn svip á embættið fyrir fjórum árum. Guðni þekkir forsetaembættið, valdsvið þess og ábyrgð í þaula og ber djúpa virðingu fyrir því. Hann hefur sterkt siðferðisþrek og ber sér ekki yfirlýsingaglaður á brjóst, heldur fetar af öryggi og festu vandrataðan veg auðmýktar. Hann er góðum gáfum gæddur og ber jafna virðingu fyrir því stóra sem smáa, setur sig ekki á stall, nema síður sé. Börnin eiga í honum sterka fyrirmynd og málsvara, enda sýnir hann þeim einlægan áhuga hvar sem hann kemur. Guðni er maður fólksins og endurspeglast það ríkulega í virkni hans og frumkvæði varðandi hvers konar mannréttinda- og líknarmál. Hann hikar ekki við að fara ótroðnar slóðir þegar kemur að mannúð og líkn og hefur verið brautryðjandi í mögnuðum góðverkum. Í því er hann sem forseti dýrmætur leiðtogi og fyrirmynd og á þar góðan stuðning og samverkakonu í eiginkonu sinni henni Elizu, sem einnig hefur heillað þjóðina með framgöngu sinni. Saman standa þau yfirveguð sem eitt, í góðvild sinni, gleði og styrk, ávallt reiðubúin að leggja málefnum lið í anda eflingar og sameiningar.

Á allt þetta og svo miklu meira var ég minnt við heimsókn þeirra hjóna hingað til Akureyrar á dögunum. Nú veit ég að mikill meirihluti þjóðarinnar er sammála mér um hve mikils virði það er að hafa slíkt gull af manni sem hann Guðna sem forseta. Mér er því mikið í mun að við virðum kosningaréttinn okkar dýrmæta og skundum öll sem eitt á kjörstað. Finnum okkur stund í að kjósa, drífum aðra með okkur, bjóðum fólki far. Stöndum saman og sýnum Guðna og góðum gildum hans þannig raunverulegan stuðning í verki með því að veita honum þá góðu kosningu sem hann á svo innilega skilið. Tryggjum með því gildi heiðarleika, bjartsýni, visku og velvildar áfram á Bessastöðum, til farsældar fyrir okkur öll.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×