Önnur vél Sultartangavirkjunar gengur ekki og hin er á hálfum hraða eftir að vatn gekk inn í virkjunina þegar skriða féll í afrennslisskurð fyrir neðan hana síðdegis í gær. Engar skemmdir urðu og koma skert afköst virkjunarinnar ekki niður á afhendingu orku, að sögn upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar.
Jarðvegur hrundi ofan í skurðinn úr veggnum yfir honum í gær. Við það gekk bylgja inn í stöðina sem olli því að annarri vélinni sló út. Hin vélin hefur verið á hálfum afköstum síðan. Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir að unnið hafi verið að því í dag að moka jarðveginum upp úr skurðinum. Búist sé við því að stöðin verði komin í eðlilegan rekstur á morgun.
Fullyrðir hún að engar skemmdir hafi orðið og að engin varanleg áhrif verði af völdum skriðunnar.
„Það eru engar skemmdir. Þetta sló hana bara kalda í bili,“ segir Ragnhildur.