Kínversk yfirvöld hafa fjarlægt bækur eftir þekkta lýðræðissinna í Hong Kong til að fara yfir hvort að efni þeirra samræmist nýjum og umdeildum öryggislögum sem tóku gildi í síðustu viku. Bækurnar eru ekki lengur aðgengilegar á bókasöfnum borgríkisins.
Öryggislögin kveða á um lífstíðarfangelsisdóma yfir þeim sem gerast sekir um uppreisn, undirróður, hryðjuverk eða samráð við erlend ríki. Daginn eftir að þau tóku gildi var karlmaður handtekinn fyrir að vera með fána sjálfstæðs Hong Kong. Á föstudag var ökumaður bifhjóls sem fór með svipaðan fána inn í hóp lögreglumanna á mótmælum ákærður fyrir hryðjuverk og að hvetja til uppreisnar.
Bókasafnsyfirvöld í Hong Kong kanna nú hvort að „ákveðnar bækur brjóti gegn ákvæðum þjóðaröryggislaganna“. Ekki er ljóst hversu margar bækur eru til skoðunar.
Reuters-fréttastofan segir að fyrir vikið séu bækur eftir unga aðgerðasinnann Joshua Wong og lýðræðissinnann Tönyu Chan annað hvort óaðgengilegar eða til skoðunar þegar leitað er að þeim á vefsíðu bókasafnanna.
Gagnrýnendur laganna segja að þau svipti íbúa Hong Kong þeim borgararéttindum sem þeim var lofað þegar Bretar skiluðu nýlendu sinni til Kínverja árið 1997. Wong segir að lögin komi á ritskoðun eins og þeirri sem er við lýði á meginlandi í Hong Kong.