Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, hefur ekki miklar áhyggjur af varnarleik liðsins þó að liðið hafi lekið inn fjölda marka í upphafi Pepsi Max-deildarinnar.
FH gerði 3-3 jafntefli við Breiðablik í stórfjörugum leik í Pepsi Max-deildinni í gærkvöldi en FH lenti í tvígang undir og kom til baka.
Ólafur segir að það sé eðlileg skýring á því hversu mörg mörk hafa verið skoruð í upphafi Íslandsmótsins í ár en margir leikirnir hafa verið ansi fjörugir eftir að deildin fór af stað eftir kórónuveiruhléið.
„Nú fæ ég pottþétt eitthvað yfir mig að ég sé að væla. Ég er ekki að væla. Þetta er yfir línuna en þessi tími sem þú hefur venjulega fengið með liðið til að setja það upp og drilla þau í t.d. varnarleik, tengingu á milli manna og framvegis hefur ekki verið til staðar,“ sagði Ólafur.
„Við hoppuðum beint inn í mótið eftir COVID. Það er ekkert bara FH-liðið. Það eru fleiri lið. Þetta er enginn afsökun og það er stuð og stemning.“
Umræðuna um varnarleik FH og byrjun Íslandsmótsins má sjá hér að neðan.