Körfubolti

Blikarnir semja við tvær af sínum bestu körfuboltadætrum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Isabella Ósk Sigurðardóttir (til vinstri) og Sóllilja Bjarnadóttir með penna í hendi að undirrita samningana sína.
Isabella Ósk Sigurðardóttir (til vinstri) og Sóllilja Bjarnadóttir með penna í hendi að undirrita samningana sína. Mynd/Breiðablik

Sóllilja Bjarnadóttir og Isabella Ósk Sigurðardóttir hafa báðar skrifað undir samning við Körfuknattleiksdeild Breiðabliks. Sóllilja kemur til Breiðabliks frá KR og Isabella Ósk er að koma til baka eftir krossbandssslit.

„Bæði Sóllilja og Isabella eru uppaldar í Breiðablik sem gerir þessa undirskrift enn skemmtilegri,“ segir í frétt um samningana á fésbókarsíðu Blika. Isabella Ósk Sigurðardóttir heldur upp á 23 ára afmælið sitt í ágúst en Sóllilja Bjarnadóttir er tveimur árum eldri.

Isabella Ósk Sigurðardóttir meiddist illa á hné seint á árinu 2018 og kom til baka í vetur þar sem hún var með 4,6 stig og 10,0 fráköst að meðaltali í leik í átta leikjum. Fyrir meiðslin þá var hún með 9,6 stig, 10,8 fráköst og 2,2 varin skot að meðaltali í leik á 2018-19 tímabilinu.

Isabella Ósk Sigurðardóttir, sem spilar sem framherji, var komin inn í A-landsliðið áður en hún meiddist. Sóllilja Bjarnadóttir er bakvörður og hefur verið í A-landsliðinu.

Isabella Ósk er þrátt fyrir ungan aldur fjórði leikjahæsti leikmaður Blika í efstu deild og er einnig sú sem hefur tekið flest fráköst og varið flest skot fyrir Breiðablik í úrvalsdeildinni.

Sóllilja Bjarnadóttir kemur aftur til Breiðabliks frá KR þar sem hún spilaði í fyrra og var með 5,4 stig og 1,0 stoðsendingu að meðaltali í leik. Á besta tímabili sínu með Blikum (2017-18) var Sóllilja Bjarnadóttir með 11,9 stig og 3,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Sóllilja er fimmti stigahæsti leikmaður Blika í efstu deild og enn fremur í öðru sæti í stoðsendingum og í þriðja sæti í þriggja stiga körfum.

„Körfuknattleiksdeild Breiðabliks er afar ánægð með þessa samninga. Með þessum samningum er ljóst að Breiðablik ætlar að láta mikið til sín taka á komandi tímabili,“ segir í frétt um samningana á fésbókarsíðu Blika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×