Innlent

Þau smituðu eru Íslendingar sem völdu að fara í sóttkví

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skimun hófst á Keflavíkurflugvelli 15. júní síðastliðinn.
Skimun hófst á Keflavíkurflugvelli 15. júní síðastliðinn. Vísir/vilhelm

Tveir íslenskir ríkisborgarar sem völdu að fara í sóttkví við komu til landsins frá áhættusvæði greindust í gær með Covid-19, sjúkdóminn sem kórónuveiran veldur. Fólkið kom til landsins fyrir sjö dögum og fór í skimun eftir að það fékk einkenni veirunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Þegar hafði verið greint frá því í morgun að tvö virk smit, þau fyrstu í heila viku, hefðu greinst í einstaklingum sem komu erlendis frá. Alls voru smit sem greindust við landamærin síðasta sólarhringinn sex, þar af voru tveir með mótefni og tveir bíða niðurstöðu úr mótefnamælingu.

Þá hefur einn þeirra 730 farþega sem koma með Norrænu til Seyðisfjarðar á morgun greinst með Covid-19. Sýnataka á farþegum fór fram í Hirtshals í Danmörku áður en skipið hélt þaðan á þriðjudag.

Óvíst er hvort farþeginn sé með gamalt eða virkt smit en viðkomandi ber ekki einkenni veirunnar. Frekari sýnataka og mótefnamæling fer fram þegar skipið kemur til Seyðisfjarðar. Fimm eru á ferð með umræddum farþega og eru allir í einangrun um borð í skipinu. Aðrir farþegar eru ekki taldir útsettir fyrir smiti og verða því ekki fyrir áhrifum vegna þessa.

Frá og með morgundeginum bætast ferðamenn frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi á lista með Færeyjum og Grænlandi og verða þannig undanþegnir kröfum um skimun og sóttkví vegna Covid-19.


Tengdar fréttir

Tvö virk smit bættust við

Tvö virk kórónusmit bættust við síðasta sólarhringinn eftir skimun á landamærunum.

Bandarískt bóluefni tilbúið fyrir lokaprófanir

Fyrsta bóluefnið sem gerðar voru tilraunir með í Bandaríkjunum hafði þau áhrif á ónæmiskerfið sem vísindamenn höfðu vonast eftir og er bóluefnið tilbúið til lokaprófanna. Það eru því þrjú möguleg bóluefni sem eru lengst komin í þróuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×