Fótbolti

Messi lét menn heyra það hjá Barcelona: Hlutirnir verða að breytast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi var langt niðri eftir leik Barcelona og Osasuna á Nývangi í gærkvöldi.
Lionel Messi var langt niðri eftir leik Barcelona og Osasuna á Nývangi í gærkvöldi. EPA-EFE/Alberto Estevez

Lionel Messi var allt annað en sáttur eftir tapleik Barcelona í gær en þetta var fyrsta tap Börsunga á heimavelli í 30 leikjum. Á sama tryggði Real Madrid sér spænska meistaratitilinn.

Það hefði ekki verið nóg fyrir Barcelona að vinna leikinn því Real Madrid nægði bara að vinna sinn leik.

Lionel Messi skoraði mark Barcelona í 1-2 tapi á móti Osasuna með skoti beint úr aukaspyrnu. Hann er markahæsti leikmaður deildarinnar með 23 mörk.

„Við bjuggumst ekki við því að þetta myndi enda svona en svona hefur tímabilið verið hjá okkur,“ sagði Lionel Messi. Osasuna er í ellefta sæti deildarinnar og þetta átti því að vera nokkuð þægilegt verkefni fyrir Barcelona. Annað kom á daginn.

„Við erum veikt lið sem lið geta unnið með vinnusemi og baráttu. Við höfum tapað fullt af stigum þegar við áttum ekki að gera það. Við höfum verið mjög óstöðugir. Hlutirnir verða að breytast,“ sagði Messi.

„Við verðum núna að vera sjálfsgagnrýnin og leikmennirnir þurfa að byrja en síðan þarf allt félagið að taka sig í gegn. Við erum Barcelona og okkur ber skylda til að vinna alla leiki sama hver mótherjinn er,“ sagði Messi.

Barcelona er með 79 stig eða sjö stigum minna en nýkrýndir meistarar Real Madrid þegar aðeins ein umferð er eftir. Börsungar hafa tapað tvöfalt fleiri deildarleikjum en Real Madrid eða sex á móti þremur.

Barcelona liðið hefur reyndar skorað 81 mark í 37 leikjum eða þrettán fleiri en meistarar Real Madrid en hafa aftur á móti fengið á sig fimmtán fleiri mörk. Getafe og Athletic Bilbao er dæmi um tvö lið sem hafa fengið á sig færri mörk en Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×