Fótbolti

Fyrstur til að verða meistari með báðum Madrídarliðunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thibaut Courtois hefur átt frábært tímabil með Real Madrid.
Thibaut Courtois hefur átt frábært tímabil með Real Madrid. getty/Diego Souto

Thibaut Courtois og félagar í Real Madrid urðu Spánarmeistarar í gær. Real Madrid sigraði Villarreal, 2-1, á meðan Barcelona tapaði fyrir Osasuna, 1-2. Þetta er 34. Spánarmeistaratitill Real Madrid.

Þetta er í annað sinn sem Courtois verður spænskur meistari en belgíski landsliðsmarkvörðurinn afrekaði það einnig með Atlético Madrid 2014.

Courtois er fyrsti leikmaðurinn sem verður Spánarmeistari með báðum stóru Madrídarliðunum, Real og Atlético.

Eftir erfiða byrjun hjá Real Madrid eftir félagaskiptin frá Chelsea hefur Courtois náð fyrri styrk og verið frábær á þessu tímabili.

Ljóst er að Courtois fær Zamora verðlaunin sem eru veitt þeim markverði sem fær á sig fæst mörk að meðaltali í leik í spænsku úrvalsdeildinni. Hann fékk þessi verðlaun einnig tvisvar þegar hann lék með Atlético Madrid, þ.á.m. meistaratímabilið 2013-14.

Ferilskrá Courtois er ansi glæsileg en hann hefur einnig unnið landstitla í Belgíu og á Englandi. Þá var hann valinn besti markvörður HM 2018 þar sem Belgar enduðu í 3. sæti. Courtois á nóg eftir en hann er aðeins 28 ára.

Real Madrid mætir Leganés í lokaumferð spænsku úrvalsdeildarinnar klukkan 19:00 á sunnudaginn.

Þann 7. ágúst mæta nýkrýndir Spánarmeistarar Manchester City í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. City vann fyrri leikinn á Santiago Bernabéu, 1-2, og stendur því vel að vígi fyrir þann seinni.


Tengdar fréttir

Kroos fagnaði titlinum með hamborgara og frönskum

Hvernig fagna menn, þaulvanir í þeim fræðum, því að vinna spænska meistaratitilinn í fótbolta? Þjóðverjinn Toni Kroos fékk sér að minnsta kosti hamborgara og franskar.

Sjáðu meistarafögnuð Real og furðuvítið

Zinedine Zidane og lærisveinar hans í Real Madrid fagna vel í kvöld eftir að hafa tryggt sér spænska meistaratitilinn. Real hefur nú orðið Spánarmeistari 34 sinnum, langoftast allra.

Real Madrid spænskur meistari

Real Madrid varð í kvöld spænskur meistari í fótbolta í 34. sinn þegar liðið vann Villarreal 2-1 á heimavelli.

Barcelona þarf að sætta sig við silfrið

Eftir að hafa unnið spænska meistaratitilinn tvö síðustu ár verður Barcelona að sætta sig við silfur í ár en liðið tapaði í kvöld gegn Osasuna í næstsíðustu umferð, 2-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×