Fótbolti

Ísak Snær til St. Mirren á láni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ísak Snær verður fyrsti Íslendingurinn til að spila í skosku úrvalsdeildinni síðan árið 2012.
Ísak Snær verður fyrsti Íslendingurinn til að spila í skosku úrvalsdeildinni síðan árið 2012. Vísir/St. Mirren

Ísak Snær Þorvaldsson, fyrirliði U-19 ára landsliðs Íslands í fótbolta, mun spila með St. Mirren í skosku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Mun hann leika í treyju númer 23 hjá félaginu. Ísak Snær hefur alls leikið 23 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Ísak Snær skrifaði á dögunum undir nýjan samning við félag sitt Norwich City – sem féll úr ensku úrvalsdeildinni í vetur – til ársins 2022. Nú er ljóst að hann mun ekki spila í ensku B-deildinni með liðinu á næstu leiktíð heldur mun hann leika í skosku úrvalsdeildinni.

Norwich greindi frá þessu á vef sínum fyrr í dag.

Jim Goodwin, þjálfari St. Mirren, segist vera spenntur fyrir komu Ísaks.

„Hann er miðjumaður sem getur smá af öllu. Hann er öflugur líkamlega en líka með góða tækni,“ sagði Goodwin.

St. Mirren endaði 9. sæti deildarinnar á þessu ári en tímabilinu var aflýst vegna kórónu-faraldursins. Nýtt tímabil hefst hins vegar strax 1. ágúst næstkomandi. Þá kemur Livingston í heimsókn á St. Mirren Park, heimavöll St. Mirren.

Ísak verður þriðji Íslendingurinn til að leika með félaginu. Þórolfur Beck lék með því við góðan orðstír frá 1961 til 1964. Alls skoraði Þórólfur 25 mörk í 80 leikjum í skosku úrvalsdeildinni. Guðmundur Torfason lék svo með félaginu frá 1989-1992 og gerði 24 mörk í 76 leikjum í úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×