Tveir skipverjar súrálsskipsins Seaboss, sem lagðist að bryggju á Grundartanga síðastliðinn miðvikudag, greindust með Covid-19 við landamæraskimun á Keflavíkurflugvelli. Áætlað var að þeir myndu fljúga hingað til lands og sigla af landi brott með skipinu á morgun.
Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við fréttastofu.
Mennirnir tveir greindust með kórónuveiruna við landamæraskimun síðastliðinn laugardag og var í kjölfarið komið fyrir í farsóttahúsinu á Rauðarárstíg. Þeir höfðu ferðast hingað til lands frá Kaupmannahöfn, en skipið Seaboss er skráð á Möltu.
Samkvæmt upplýsingum frá Gísla Jóhanni Hallssyni, yfirhafnsögumanni Faxaflóahafna, mun skipið sigla frá Grundartanga á morgun þrátt fyrir þetta.