Erlent

Vilja Suðurríkjastytturnar burt úr þinghúsinu

Andri Eysteinsson skrifar
Stytta af Roger B. Taney, forseta Hæstaréttar sem stendur í þinghúsinu.
Stytta af Roger B. Taney, forseta Hæstaréttar sem stendur í þinghúsinu. Vísir/AP

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt frumvarp sem snýr að því að styttur af suðurríkjaleiðtogum á borð við Robert E. Lee verði fjarlægðar úr þinghúsinu.

Fulltrúadeildin samþykkti frumvarpið örugglega með 305 atkvæðum gegn 115 og fer það nú fyrir öldungadeildina. Óvíst er hvernig öldungadeildin, þar sem Repúblikanar eru í meirihluta, muni fara með málið.

Verði frumvarpið að lögum verða að minnsta kosti tíu styttur fjarlægðar úr þinghúsinu í Washington. Þar á meðal áðurnefndur Lee hershöfðingi Suðurríkjanna í borgarastríðinu, Jefferson Davis, forseta Suðurríkjanna. Styttur af hvítum þjóðernissinnum, þar á meðal af fyrrverandi varaforsetanum John C. Calhoun, verða fjarlægðar.

Þá verður styttan af Roger B. Taney fyrrum forseta Hæstaréttar Bandaríkjanna fjarlægð en hann ákvarðaði árið 1857 að svartir Bandaríkjamenn gætu ekki talist ríkisborgarar.

Meðhöfundur frumvarpsins, Steny Hoyer frá Maryland, sagði að það yrði réttlátt að skipta út styttunni af Taney, sem var frá Maryland, fyrir styttu af Thurgood Marshall, fyrsta svarta hæstaréttardómara Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×