Ellefu er nú í einangrun á Íslandi en ekkert nýtt innanlandssmit greindist í gær. Einn greindist þó smitaður við landamærin en tíu voru í einangrun í gær. Tvö ný og ótengd innanlandssmit greindust í fyrradag og var það í fyrsta sinn í þrjár vikur. Smitrakningu þar er að ljúka og hafa á fimmta tug einstaklinga verið sendir í sóttkví.
Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir að smitrakningu sé lokið eða mjög langt komin í tveimur málum sem opinberuð voru í gær. Í öðru tilfellinu var á fjórða tug manna gert að fara í sóttkví.
Talað var við mun fleiri og var þeim ráðlagt að huga vel að persónulegum smitvörnum.
Í hinu málinu voru færri en tíu sendir í sóttkví. Það er mun smærra í sniðum og er jafnvel talið mögulegt að smitið hafi borist að utan.