Erlent

Skutu eldflaugum á eftirlíkingu af bandarísku skipi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frá heræfingu Írana á Hormuz-sundi í dag.
Frá heræfingu Írana á Hormuz-sundi í dag. Vísir/EPA

Íranska byltingarvarðliðið skaut í morgun eldflaug á eftirlíkingu af flugmóðurskipi á Hormuz-sundi. Æfingin þykir til þess gerð að ögra Bandaríkjamönnum.

Spennan á milli Bandaríkjanna og Íran var í hæstu hæðum í upphafi árs eftir að Bandaríkjamenn drápu Qasem Soleimani, yfirmann byltingarvarðliðsins, og Íranar svöruðu með því að skjóta eldflaugum á herstöðvar í Írak. Síðan þá hefur lítið farið fyrir deilunni.

Fyrir helgi reiddust Íranar Bandaríkjamönnum. Stjórnvöld sökuðu Bandaríkjamenn um að hafa flogið herþotu sinni upp að íranskri farþegaflugvél yfir Líbanon með þeim afleiðingum að flugmaðurinn neyddist til að lækka flugið í hraði og nokkrir farþegar slösuðust lítillega. Bandarískir embættismenn sögðu aftur á móti að herþota hafi flogið framhjá flugvélinni, í hæfilegri fjarlægð.

Heræfing íranska byltingarvarðliðsins í morgun kallaðist Spámaðurinn mikli fjórtán og snerist um átök við flugmóðurskip. Eftirlíkingin sem var notuð svipar til bandarískra flugmóðurskipa en auk þess að skjóta eldflaug á eftirlíkinguna æfðu hermenn sig í að skjóta á dróna.

Bandaríska flugmóðurskipið Nimitz sigldi inn á Ómanflóa í síðustu viku, að sögn AP til að leysa af hólmi skipið Dwight D. Eisenhower. Óljóst er hvort Nimitz fari í gegnum Hormuz-sund, þar sem heræfingin var gerð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×