Til átaka kom á milli lögreglunnar í Beirút og mótmælenda í nótt en fólk hópaðist út á götur borgarinnar til að mótmæla landlægri spillingu og óstjórn í Líbanon. Lögreglan beitti táragasi gegn hópi fólks sem hafði safnast saman nærri þinghúsi landsins.
Reiði fólksins blossaði upp þegar hin gríðarlega sprenging varð á hafnarsvæðinu síðastliðinn þriðjudag þar sem að minnsta kosti 137 fórust og þúsundir slösuðust. Talið er að um 300 þúsund séu án heimilis eftir sprenginguna.
Margir saka stjórnvöld um sinnuleysi í málinu en ítrekað hafði verið bent á hættuna af því að geyma 2750 tonn af ammóníum-nítrati í vöruhúsi við höfnina. Þrátt fyrir það var ekkert að gert og því fór sem fór.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti heimsótti Beirút í gær og við það tilefni sagði hann ljóst að breytinga væri þörf í Líbanon. Eins kallaði hann eftir innri rannsókn á málinu.
Tveir embættismenn hafa sagt af sér í kjölfar sprengingarinnar. Þingmaðurinn Marwan Hamadeh sagði af sér á miðvikudag og Jordan Tracy Chamoun, sendiherra Líbanons í Jórdaníu sagði af sér í gær. Hann sagðist telja að tímabært væri að fólki í leiðtogastöðum yrði skipt út.
Samkvæmt ríkisfjölmiðli Líbanons hafa 16 verið hneppt í varðhald í tengslum við rannsókn á málinu.