Erlent

Sprenging í Baltimore

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Húsin eru rústir einar eftir sprenginguna.
Húsin eru rústir einar eftir sprenginguna. AP

Sprenging í norðvesturhluta bandarísku borgarinnar Baltimore í Bandaríkjunum jafnaði þrjú hús við jörðu í dag. Staðarmiðlar segja hið minnsta einn hafa farist í sprengingunni og að þrjú séu alvarlega særð.

Þó svo að orsök sprengingarinnar sé óljós á þessari stundu beinast spjótin að gaslögnum hússins. Gasveitukerfi borgarinnar er víða sagt komið til ára sinna og er talið að það muni taka um tvo áratugi að lagfæra þær þúsundir kílómetra sem þarfnast endurnýjunar. Fólki hefur verið ráðlagt að halda sig frá svæðinu af ótta við gasleka.

Slökkvilið borgarinnar sendi næstum 200 manns og níu slökkviliðsbíla á vettvang. Í tísti frá slökkviliðinu segist það hafa náð sambandi við einn íbúa hússins sem enn var fastur í rústunum. Í fyrstu var ætlað að um fimm kynnu að vera í sömu sporum, þar af nokkur börn.

Íbúar hverfisins segja í samtali við Baltimore Sun að sprengingin hafi verið gríðarleg. Rúður og hurðar hafi t.a.m. til að mynda brotnað í nærliggjandi húsum. Krafturinn hafi verið slíkur að fólk hafi fallið um koll og íbúðir nötrað. Einn lýsir því hvernig honum hafi brugðið við sprenginguna, hlaupið út og séð spýtnabrak á við og dreif um hverfið.

Björgunaraðgerðir standa enn og má sjá beina útsendingu frá Baltimore hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×