Erlent

Miðbæ Chicago lokað vegna óláta

Andri Eysteinsson skrifar
Reynt er að komast hjá því að mótmælendur og óeirðarseggir komist inn í miðbæ Chicago.
Reynt er að komast hjá því að mótmælendur og óeirðarseggir komist inn í miðbæ Chicago. Getty/Scott Olson

Aðgangur að miðborg Chicago-borgar verður heftur í nótt eftir óeirðir og eyðileggingu í kjölfar mótmæla vegna þess að lögregla skaut tvítugann mann í borginni á sunnudagskvöld.

Lögreglustjórinn David Brown segir að aðgangur verði heftur á milli 20:00 og 06:00 að staðartíma og muni fjölmennt lið lögreglu gæta miðborgarinnar. Brown sagði að eyðilegging og skemmdir sem unnar voru hafi verið skammarlega og hafist vegna rangra upplýsinga.

Lögregla hefur handtekið fleiri tuga manna fyrir gripdeildir, óspektir og brot gegn valdstjórninni. Þá segir lögregla að skotið hafi verið af skotvopnum á mánudagsmorgun í borginni. Þá hafði lögregla lokað fyrir aðgang að miðborginni með því að stöðva almenningssamgöngur og með því að reisa upp vindubrýr.

BBC greinir frá því að þrettán lögreglumenn hafi særst en einn þeirra fékk flösku í andlitið.

Brown segir að óeirðirnar hafi hafist eftir að fregnir bárust af því að lögregla hefði skotið mann sem grunaður var um vörslu skotvopns. Maðurinn, sem er tvítugur að aldri, liggur nú á sjúkrahúsi og er búist við því að hann nái sér að fullu.

„Eftir atvikið söfnuðust hópar fólks saman og var mikill hiti í fólki. Glæpamenn flykktust svo á göturnar og tölu að gjörðir þeirra myndu engar afleiðingar hafa. Ég neita að leyfa þessu fólki að halda borginni okkar í gíslingu,“ sagði Brown.

Borgarstjóri Chicago, Lori Lightfoot, hefur fordæmt ofbeldið sem lögreglan var beitt og hvatti lögregluna til að finna þá sem bera ábyrgð. Sagði hún að ekkert væri sameiginlegt á milli óláta sunnudagskvöldsins og mótmælanna sem spruttu út um víða veröld eftir dauða George Floyd í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×