Erlent

Segir Bandaríkjaher ekki á förum frá Írak

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bandarískir hermenn hafa verið í Írak þar sem þeir aðstoða íröksk stjórnvöld í baráttunni gegn ISIS-samtökunum.
Bandarískir hermenn hafa verið í Írak þar sem þeir aðstoða íröksk stjórnvöld í baráttunni gegn ISIS-samtökunum. vísir/getty

Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir það ekki rétt að Bandaríkjaher sé á förum frá Írak. Fjölmiðlar greindu frá því fyrr í kvöld, með vísan til bréfs frá hershöfðingjanum William H Seely III til írakskra yfirvalda, að Bandaríkjaher væri á förum frá Írak.

Mark Milley, formaður herforingjaráðs bandaríska hersins, að bréfið hafi í raun bara verið uppkast. Það hafi verið mistök, ekki undirritað og að það hefði ekki átt að fara af stað. Þá sé það illa orðað og gefi í skyn að Bandaríkjaher sé á förum frá Írak. Það sé ekki raunin.

Í frétt Reuters kom fram að um væri að ræða þá hermenn Bandaríkjahers í Írak sem hefðu aðstoðað heimamenn í baráttunni gegn ISIS, en fleiri bandarískir hermenn eru í landinu.

Esper segir að fyrrnefnt hershöfðingjans sé ekki nákvæmt. Bandaríkjastjórn hafi engin áform um að flytja herinn burt frá Írak.

Deborah Haynes, ritstjóri erlendra frétta hjá Sky News, segir að heimildarmann sinn hjá bandaríska hernum hafa sagt að verið væri að flytja nokkur hundruð hermenn frá Bagdad af öryggisástæðum. Herinn væri ekki á förum frá Írak og heldur ekki frá Bagdad.

Í frétt Washington Post er haft eftir ónafngreindum heimildarmanni innan úr bandaríska hernum að bréfið væri tilraun til þess að láta íröksk stjórnvöld vita af því að Bandaríkjamenn ætli sér að færa hersveitir sínar til innan landsins. Bréfið fæli það ekki í sér að Bandaríkjaher væri á förum frá Írak.

Mikil spenna hefur verið á svæðinu eftir að Bandaríkjamenn réðu íranska hershöfðingjann Quasem Soleimani af dögum í Bagdad í síðustu viku.

Greint var frá því í gær að írakska þingið hefði samþykkt ályktun þess efnis að kallað yrði eftir því að erlendir hermenn, sem dvalið hafa í landinu, myndu yfirgefa Írak sem fyrst.

Í kjölfarið hótaði Donald Trump, Bandaríkjaforseti, harkalegum viðskiptaþvingunum á Írak fari svo að bandarískir hermenn verði reknir frá landinu.

Fréttin var uppfærð og fyrirsögn breytt klukkan 21:17 eftir að varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hafði tjáð sig um málið við fjölmiðla.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 21:51.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×