Tvær af fremstu CrossFit konum Íslands verða í nýju hlutverki í Sant Jordi Club í Barcelona 1. febrúar næstkomandi þegar þar fer fram CrossFit keppnin Freakest Challenge.
Freakest Challenge er CrossFit keppni átta liða og nú fá í fyrsta sinn evrópsk lið að taka þátt en hingað til hefur keppnin verið milli liða á Spáni. Nú verða sex Evrópulið með og tvo frá Spáni.
Í hverju liði eru tveir karlar og tvær konur en öll keppnin fer fram á einum degi.
Sara Sigmundsdóttir var ein gestunum í fyrra en nú er hún einn af átta mentorum. Í sama hlutverki verður einnig Þuríður Erla Helgadóttir.
Hinir mentorarnir eru Lauren Fisher, Laura Horvath, Mathew Fraser, Noah Ohlsen, Lucas Hogberg og Willy Georges.
Nike valdi mentorana sérstaklega og fær hver þeirra það hlutverk að sjá um eitt lið. Þeir munu verða þjálfarar liðsins og miðla þar af dýrmætri reynslu sinni úr CrossFit.
Keppnin er vissulega öðruvísi en flestar CrossFit keppnir og enn meiri spenna í loftinu vegna þess að hún klárast öll á sama degi. Talið er að „Freakest Challenge“ klárist á þremur til fjórum tímum og þetta er því mikil keyrsla.
Liðin átta sem komust í úrslit eru eftirtalin: CrossFit 77feet, Area CrossFit, CrossFit 4 friends, CrossFit Minus, Milanimal, AAIN CrossFit, CrossFit La Nau og CrossFit Torredembarra.
Þetta er útsláttarkeppni. Fyrsta átta liða úrslit, svo undanúrslit og loks úrslitin.