Eyrún Inga Maríusdóttir var nýfermd þegar foreldrar hennar, Halldóra Skúladóttir og Maríus Sigurjónsson, ákváðu að flytja með hana til Leeds á Englandi, þar sem pabbi hennar hafði fengið vinnu. Eyrún var spennt í fyrstu en skömmu áður en þau áttu að flytja harðneitaði hún að fara og vildi verða eftir hjá ömmu sinni á Íslandi.
Eyrún og foreldrar hennar eru viðmælendur Lóu Pind í 7. þætti af Hvar er best að búa sem er á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld.
Fjórum árum síðar hafði Eyrún gjörbreyst. Hún fann metnaðinn í enskum gagnfræðaskóla og þegar þátturinn var tekinn upp var hún að ljúka prófum til að komast í háskóla. Hún finnur mikinn mun á þeim íslensku og ensku skólum sem hún hefur gengið í, telur að aginn og metnaðurinn og aðhaldið í breska skólanum hafa orðið til þess að hún fann sína leið, sína styrkleika og framtíðarsýn.
Í myndbrotinu úr þætti kvöldsins má heyra Eyrúnu lýsa því hvaða áhrif flutningurinn hefur haft á hana.
Lóa Pind Aldísardóttir heimsótti Halldóru, Maríus og Eyrúnu fyrir þáttaröðina „Hvar er best að búa?“ og sjá má afraksturinn í 7. þætti sem er á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld kl. 19:10. Í þessari átta þátta seríu heimsækir Lóa Pind fólk og fjölskyldur í níu löndum í fjórum heimsálfum.
Framleiðandi og leikstjóri þáttanna er Lóa Pind Aldísardóttir, myndatökumaður þessa þáttar er Lúðvík Páll Lúðvíksson og klippingu annaðist Tumi Bjartur Valdimarsson. Framleitt af Lóa Production fyrir Stöð 2.