Carrie Lam, leiðtogi Hong Kong, lýsti yfir neyðarástandi í sjálfstjórnarhéraðinu í dag vegna Wuhan-veirunnar.
Heilbrigðisyfirvöld í borginni hafa staðfest fimm tilfelli þar sem fólk hefur greinst með umrædda veiru og eru 122 aðrir grunaðir um að hafa smitast af veirunni.
Tilkynnti hún um aðgerðir til að hemja útbreiðslu þessa nýja afbrigðis kórónaveirunnar sem fela meðal annars í sér að takmarka ferðalög fólks til og frá meginlandi Kína.
Sjá einnig: Fjöldi látinna af völdum Wuhan-veirunnar tekur stökk
Flug- og lestarsamgöngur milli Hong Kong og Wuhan, þar veiran er talin eiga upptök sín, verða til að mynda stöðvaðar.
Einnig verður lokun skóla vegna nýársfögnuðar framlengd til 17. febrúar og hafa yfirvöld óskað eftir því að háskólar borgarinnar muni sömuleiðis framlengja frí nemenda.
Talið er að 41 hafi nú látist í Kína af völdum Wuhan-veirunnar svokölluðu og hafa heilbrigðisyfirvöld þar í landi átt í erfiðleikum með að hefta útbreiðslu hennar. Talið er að 1.287 hafi alls greinst með veiruna í Kína eða yfir 1.300 á heimsvísu.
Smit hafa meðal annars greinst í Frakklandi, Bandaríkjunum og Ástralíu.
Sjá einnig: Hefja byggingu nýs sjúkrahúss vegna Wuhan-veirunnar
Carrie Lam greindi frá því að horfið verði frá öllum opinberum heimsóknum til meginlands Kína á meðan ástandið varir og að hætt verði við alla opinbera viðburði sem haldnir eru í tengslum við kínverska nýárið.
Yfirvöld þar vildu þó ekki ganga svo langt að setja tímabundið bann á alla fólksflutninga frá meginlandi Kína en Lam segir að það yrði mjög óhagkvæmt að loka landamærum borgarinnar við meginlandið.
Á Íslandi hefur þegar verið gripið til ráðstafana. Byrjað er að starfa eftir viðbragðsáætlun á Keflavíkurflugvelli, auk þess sem allar heilbrigðisstofnanir landsins hafa verið hvattar til að uppfæra viðbragðsáætlanir sínar. Þá hefur Ferðamálastofa verið virkjuð til að koma upplýsingum til ferðamanna á framfæri.
Lýsa yfir neyðarástandi í Hong Kong vegna Wuhan-veirunnar

Tengdar fréttir

Hefja byggingu nýs sjúkrahúss vegna Wuhan-veirunnar
Kínverjar hafa hafið framkvæmdir við byggingu á nýju sjúkrahúsi í borginni Wuhan þar sem til stendur að hlúa að sjúklingum sem greinst hafa með Wuhan-veiruna.

Fjöldi látinna af völdum Wuhan-veirunnar tekur stökk
Samtals hefur nú 41 látist af völdum Wuhan-veirunnar svokölluðu, nýs afbrigðis af kórónaveirunni.

Unnið eftir viðbragðsáætlun vegna Wuhan-veirunnar
Byrjað er að starfa eftir viðbragðsáætlun á Keflavíkurflugvelli vegna útbreiðslu Wuhan-veirunnar svokölluðu, nýrrar kórónaveiru sem dregið hefur 26 til bana á heimsvísu.

Íbúar tíu borga Kína í ferðabanni
830 tilfelli veirunnar hafa nú verið staðfest og með ferðabanninu vilja yfirvöld reyna að hefta útbreiðslu smitsins á þessari mestu ferðahelgi ársins hjá Kínverjum sem halda nú upp á áramót.

Grunur um tvö tilfelli Wuhan-veirusmits í Finnlandi
Alls hafa 26 manns látist af völdum veirunnar og mörg hundruð smitast.