Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna sem hafa rannsakað morðið á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi krefjast þess að rannsakað verði hvort að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hafi persónulega hakkað síma Jeff Bezos, stofnanda Amazon og eiganda Washington Post.
Tölvuöryggissérfræðingur sem Bezos réði til að rannsaka hvernig bandarískt götublað komst yfir gögn úr snjallsíma hans sakaði Sáda um að hafa brotist inn í símann í fyrra. Breska blaðið The Guardian fullyrti í gær að spilliforrit sem var notað við gagnastuldinni hafi verið sent úr Whatsapp-númeri sem Salman notaði í síma Bezos árið 2018.
Sádar hafna ásökununum og segja þær „fjarstæðurkenndar“. Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna telja þó ástæðu til að rannsaka ásakanirnar nánar. Agnes Callamard, sérstakur sendifulltrúi SÞ sem rannsakar aftökur utan dóms og laga, og David Kaye, sendifulltrúi SÞ um tjáningarfrelsi, segja að skera verði úr um mögulega ábyrgð Salman krónprins, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
„Upplýsingarnar sem við höfum fengið benda til mögulegrar aðildar krónprinsins í eftirlit með herra Bezos sem var liður í tilraunum til að hafa áhrif á, ef ekki til að þagga niður í, umfjöllun Washington Post um Sádi-Arabíu,“ segja þau Callamard og Kaye í sameiginlegri yfirlýsingu.
Telja þau ásakanirnar nú skjóta frekari stoðum undir fyrri fréttir um að fylgst sé markvisst með þeim sem sádi-arabísk stjórnvöld telja andstæðinga sína.
Gögnum úr síma Bezos lekið til götublaðs
Washington Post hefur fjallað gagnrýnið um málefni Sádi-Arabíu og var Jamal Khashoggi pistlahöfundur hjá blaðinu þar til hann var myrtur á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl í október árið 2018. Sádar þóttust framan af ekkert vita um afdrif blaðamannsins en viðurkenndu að lokum að hann hefði látið lífið á ræðisskrifstofunni. Lík Khashoggi hefur aldrei fundist. Bandaríska leyniþjónustan telur að Salman krónprins hafi skipað fyrir um morðið á Khashoggi.
Sími Bezos var hakkaður um fimm mánuðum áður en Khashoggi var myrtur og lík hans bútað niður á ræðisskrifstofunni í Tyrklandi. Callamard og Kaye segja að umfangsmikil og leynileg herferð hafi verið í gangi gegn Bezos og Amazon á netinu, að því er virðist vegna eignarhalds hans á Washington Post. Sími Khashoggi var hakkaður um svipað leyti og Bezos.
Gögnum úr síma Bezos, þar á meðal viðkvæmum myndum, var lekið til bandaríska götublaðsins National Enquierer í febrúar í fyrra. Það birti í kjölfarið umfjöllun um framhjáhald Bezos sem leiddi til þess að hann skildi við eiginkonu sína til aldarfjórðungs.