Erlent

Far­þegar lýsa að­stæðum um borð í tyrk­nesku vélinni: „Það voru hróp og öskur“

Eiður Þór Árnason skrifar
Rannsókn á aðdrögum slyssins stendur enn yfir.
Rannsókn á aðdrögum slyssins stendur enn yfir. Vísir/AP

Þrír eru nú látnir og 180 taldir slasaðir eftir flugslysið í Tyrklandi í gær þar sem farþegaþota rann út af flugbraut og brotnaði í hluta. Síðast var greint frá því í gærkvöldi að 157 væru taldir slasaðir eftir slysið sem átti sér stað á Sabiha Gokcen flugvellinum í Istanbúl.

183 voru um borð í vélinni frá tólf löndum. Tyrknesk yfirvöld segja að hinir látnu séu allir tyrkneskir ríkisborgarar.

Farþegar þotunnar, sem var að gerð Boeing 737, lýsa því hvernig þeim fannst vélin lækka flug sitt með óvenjumiklum hraða sem hafi leitt til ofsahræðslu um borð.

Mikil rigning og vindasamt var á flugvellinum við lendingu og rann flugvélin um fimmtíu til sextíu metra áður en hún lenti í þrjátíu metra djúpum skurði, að sögn yfirvalda.

„Á þessum hraða held ég að hún hafi ekki náð að stöðva. Þetta gerðist allt á tveimur til þremur sekúndum,“ sagði Engin Demir, einn þeirra slösuðu, í samtali við AP-fréttastofuna.

Hann segist um tíma hafa verið fastur undir braki sem féll á hann úr farangurshólfi vélarinnar.

„Það voru hróp og öskur. Ég reyndi að róa fólkið í kringum mig niður. Hjálp barst fljótlega,“ bætti Demir við.

Alper Kulu, annar farþegi vélarinnar, greindi frá því að vélin hafi sveiflast til og frá á flugbrautinni eftir lendingu áður en hún lenti í djúpum skurðinum.

„Það voru hróp og ofsahræðsla. Allir voru að kalla eftir aðstoð. Ég heyrði tilkynnt um það að vélin gæti sprungið.“

Kulu var fljótur að koma sér úr vélinni þrátt fyrir að vera handleggsbrotinn og klifraði upp úr skurðinum af ótta við að vélin myndi springa.

Slysið átti sér stað einungis um mánuði eftir að önnur vél í eigu sama flugfélags með 164 farþega um borð rann út af flugbraut á sama flugvelli þann 7. janúar síðastliðinn. Engum varð meint af í því óhappi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×