Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í morgun afskipti af konu í annarlegu ástandi sem vopnuð var hamri í miðbæ Reykjavíkur.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að konan hafi meðal annars brotið rúðu með hamrinum. Var hún vistuð í fangaklefa vegna málsins.
Annars segir að dagurinn hafi farið rólega af stað hjá lögreglunni. Einn ökumaður hafi þó verið tekinn, grunaður um að aka undir áhrifum ávana og fíkniefna.
Þá hafi verið óskað eftir lögreglu í hverfi 101 vegna innbrots í bifreið, auk þess að tilkynnt var um bílveltu í Hafnarfirði. Þar urðu þó engin slys á fólki.