Innlent

Mikil samstaða með Muhammed og fjölskyldu í Vesturbæjarskóla

Sylvía Hall skrifar
Fjölskyldan á samstöðufundinum í dag.
Fjölskyldan á samstöðufundinum í dag. Vísir/Nadine

Mikill fjöldi fólks kom saman í Vesturbæjarskóla í dag til þess að mótmæla fyrirhugaðri brottvísun Muhammed Zohair Faisal og foreldra hans. Muhammed, sem gengur í Vesturbæjarskóla, fagnaði sjö ára afmæli sínu í gær.

Fjölskyldunni á að vera vísað úr landi á morgun en þau eru upprunalega frá Pakistan. Þangað hafa þau þó ekki komið í áratug. Fyrirhuguð brottvísun hefur vakið mikla reiði meðal margra en Muhammed var fjögurra ára gamall þegar hann kom hingað til lands, talar reiprennandi íslensku og hefur aðlagast vel íslensku samfélagi.

Þegar þetta er skrifað hafa hátt í átján þúsund manns skrifað undir undirskriftalista þar sem skorað er á stjórnvöld að leyfa fjölskyldunni að dvelja hér á landi. Búist er við því að undirskriftunum fari einungis fjölgandi.

Á meðal þeirra sem tóku til máls voru Valur Grettisson og Kristján Guy Burgess. Þeir bentu á þann mikla stuðning sem fjölskyldunni hafði verið sýndur með þessum fjölda undirskrifta en undirskriftalistinn var afhentur dómsmálaráðuneytinu í dag. 


Tengdar fréttir

For­eldrar skora á stjórn­völd að stöðva brott­vísun sjö ára drengs: UNICEF vill að meira sé horft til Barna­sátt­mála SÞ í málum barna

Fulltrúar foreldra og starfsfólks í Réttindaráði Vesturbæjarskóla skora á stjórnvöld að stöðva brottvísun hins sex ára Muhammed Zohair Faisal og fjölskyldu hans. Til stendur að vísa fjölskyldunni til Pakistan næsta mánudag en hún hefur dvalið hér á landi í rúm tvö ár og hefur Muhammed gengið í Vesturbæjarskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×