Fótbolti

Fór í fjallgöngu með Håland og fannst hann bara ágætis leikmaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrik Gunnarsson og Erling Braut Håland.
Patrik Gunnarsson og Erling Braut Håland. Samsett/Bára og Getty

Íslenski unglingalandsliðsmarkvörðurinn Patrik Gunnarsson hafði sögu að segja af sér og verðandi súperstjörnu fótboltans, Norðmanninum, Erling Braut Håland, eftir frammistöðuna gegn PSG í gær.

Patrik Gunnarsson er nú markvörður enska b-deildarliðsins Brentford en fyrir rúmum þremur árum þá var hann leikmaður Breiðabliks sem fór á reynslu til Noregs.

Patrik segir frá því á Twitter-síðu sinni þegar hann og Erling Braut Håland voru til reynslu hjá norska félaginu Molde.

„Við Håland vorum saman á reynslu hjá Molde fyrir rúmum 3 árum, fórum meðal annars í fjallgöngu saman og fannst hann bara ágætis leikmaður en í dag pakkaði hann PSG saman...magnað,“ skrifaði Patrik.

Patrik og Erling eru báðir fæddir árið 2000, Erling í júlí en Patrik í nóvember.

Erling Braut Håland fékk samning hjá Molde og þaðan fór hann til austurríska félagsins Red Bull Salzburg.

Håland var síðan búinn að skora 29 mörk í 27 leikjum með Red Bull Salzburg þegar hann var seldur til Borussia Dortmund í síðasta mánuði.

Patrik Gunnarsson bíður eftir tækifærinu hjá aðalliði Brentford en hann hefur þegar spilað 21 leik með yngri landsliðum Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×