Karlmaður á Suðurnesjum datt og rotaðist þegar vindhviða hreif hann með sér í óveðrinu sem gekk yfir landið rétt fyrir helgi. Maðurinn hélt ásamt öðrum á þakplötu sem fokið hafði í óveðrinu þegar hann datt. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar.
Þá bárust lögreglu á Suðurnesjum fleiri tilkynningar um slys á síðustu dögum. Kona sem gekk á töskukerru í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hrasaði og slasaðist á hné. Hún var flutt með sjúkrabifreið til læknis.
Önnur kona sem var að tína spegilbrot upp af gólfi skarst illa á hendi og var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.