Ökumaður sem mældist á 138 kílómetra hraða á Reykjanesbraut í fyrradag reyndist „greinilega mjög ölvaður“ þegar lögreglumenn á Suðurnesjum stöðvuðu för hans, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð.
Þá voru nokkrir til viðbótar kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi Suðurnesja á síðustu dögum. Sá sem hraðast ók mældist á 153 kílómetra hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Hans bíður 210 þúsund króna sekt og svipting ökuréttinda í einn mánuð, að því er fram kemur í tilkynningu.