Lögreglan í Norður-Írlandi hefur handtekið fjóra menn vegna rannsóknar á morði blaðakonunnar Lyra McKee. Mennirnir fjórir voru handteknir á grundvelli hryðjuverkalaga Bretlands og voru þeir handteknir í Londonderry. Nýi írski lýðveldisherinn hefur lýst yfir ábyrgð á morði McKee en hún var skotin til bana þegar hún var að fylgjast með óeirðum í Londonderry í fyrra.
Í yfirlýsingu frá NIRA sagði að um slysaskot hafi verið að ræða en byssumaður samtakanna hafi ætlað að skjóta lögregluþjóna.
Nýi írski lýðveldisherinn var stofnaður árið 2012 og samanstendur af meðlimum írska lýðveldishersins sem ekki voru sáttir við friðarsamkomulagið sem gert var á Norður-Írlandi árið 1998.
BBC segir að mennirnir sem hafa verið handteknir séu 20, 27, 29 og 52 ára gamlir.
Hingað til hafa nokkrar handtökur verið framkvæmdar en árásarmaðurinn sjálfur hefur ekki fundist. Lögreglan hefur enn og aftur kallað eftir upplýsingum um morðið. Viðmælandi BBC innan lögreglunnar segist viss um að einhverjir íbúar Londonderry geti varpað ljósi á málið, þau óttist þó að ræða við lögreglu.
I welcome today's developments in the Lyra McKee murder investigation. Detectives are working hard in the pursuit of justice. Anyone with information should come forward to police. @PoliceServiceNI
— Simon Byrne (@ChiefConPSNI) February 11, 2020