Norski söngvarinn og skemmtikrafturinn Jahn Teigen er látinn, sjötugur að aldri. Norskir fjölmiðlar greina frá því að hann hafi látist í sænska bænum Ystad í gærkvöldi.
Tónlistarferill Teigen spannaði rúma hálfa öld, en hann kom að útgáfu rúmlega sextíuplatna, þar af 38 sólóplatna en hinar með sveitunum Popol Vuh/Ace, Herodes Falsk og Prima Vera og svo söngkonunni Anita Skorgan.
Teigen sló í gegn árið 1978 þegar hann vann norsku söngvakeppnina og varð fulltrúi Noregs í Eurovision með laginu Mil eftir mil. Hann hlaut núll stig í keppninni, en lagið naut engu að síður mikilla vinsælda í Noregi. Teigen tók þátt í norsku undankeppni Eurovision alls sextán sinnum og var fulltrúi Norðmanna í lokakeppninni þrisvar - 1978, 1982 og 1983.
Teigen lætur eftir sig dótturina Sara Skorgan Teigen sem hann eignaðist með fyrrverandi eiginkonu sinni, söngkonunni Anita Skorgan.
Abid Q. Raja, menningarmálaráðherra Noregs, minnist Teigen á Twitter þar sem hann segir að „þjóðargersemi okkar“ sé horfin á braut.
Nasjonalskatten vår har gått bort. Hele Norge hadde et kjært og nært forhold til Jahn Teigen, og musikken hans har satt spor i oss alle. Takk for ditt fantastiske bidrag til norsk kulturliv; du vil savnes. Våre tanker går til hans familien. Hvil i fred! https://t.co/4gW460XAwH
— Abid Q. Raja (@abidraja) February 25, 2020