Martin Hermannsson var maður leiksins þegar Alba Berlín vann mikilvægan sigur á Zenit í Pétursborg í Rússlandi á fimmtudagskvöld, í EuroLeague, sterkustu félagsliðakeppni Evrópu í körfubolta.
Martin nýtti skotin sín afar vel og skoraði 24 stig og átti sjö stoðsendingar í leiknum sem Alba Berlín vann 83-81. Hægt er að sjá körfur kappans og stoðsendingar í myndbandinu hér að neðan.
Martin var stigahæstur í leiknum og átti sinn besta leik í EuroLeague til þessa, strax í kjölfarið á því að hafa verið maður leiksins þegar Alba Berlín varð bikarmeistari um síðustu helgi. Hann fékk 27 framlagspunkta í leiknum í Rússlandi.
Alba Berlín hefur unnið níu af 25 leikjum sínum í EuroLeague í vetur. Liðið tekur á móti Anadolu Efes Istanbúl næsta fimmtudagskvöld og fær svo Barcelona í heimsókn 4. mars.