Skömmin
Algengt er að þolendur upplifi neikvæðar tilfinningar eins og skömm, sektarkennd og sjálfsásakanir. Ef ofbeldið á sér stað innan veggja heimilisins eru afleiðingarnar oft enn djúpstæðari, sérstaklega ef þolandinn er barn. Þolendur ofbeldis eru fjórum sinnum líklegri að glíma við geðröskun en þeir sem ekki hafa upplifað ofbeldi. Löggjafanum ber siðferðileg skylda til að gera allt sem í hans valdi stendur til að verja þolendur heimilisofbeldis enn betur en nú er gert.Inngrip opinberra aðila
Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál. Starfshópur á vegum dómsmálaráðherra er ætlað að móta tillögur að bættu verklagi um miðlun um heimilisofbeldismál milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu. Raunveruleikinn er sá að þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft við að tilkynna lögreglu um ofbeldi. Þess vegna er brýnt að þeir aðilar sem starfa náið með íbúunum geti tekið frumkvæði að því að grípa inn í með viðeigandi hætti og ávallt með samþykki þolanda. Þó verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafi reynst vel og tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld, er ljóst að formfesta þarf samstarfið í hina áttina, þ.e. milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntastofnana til lögreglu. Liður í því er að koma á skýrari forvirkum lagaheimildum til að miðla viðkvæmum upplýsingum.Hagsmunir barnsins í fyrirrúmi
Þegar grunur leikur á að barn hafi verið beitt ofbeldi eða orðið vitni að því þarf að tryggja að skilyrði um þátttöku og samþykki brotaþola hamli stjórnvöldum ekki að grípa inn í. Starfshópurinn mun einnig kanna hvort þörf sé að skilgreina betur tilkynningarskyldu stjórnvalda, sem hafa afskipti af málum til barnaverndarnefndar. Kerfin þurfa að geta talað saman með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Í þessu samhengi má einnig nefna að nauðsynlegt er að koma á fót úrræði fyrir börn sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi eða orðið vitni að því. Í dag eru starfrækt úrræði fyrir fullorðna einstaklinga, eins og Bjarkarhlíð, sem hefur gefið góða raun en ekkert sambærilegt úrræði er til fyrir börn.Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.