Áströlsk kona á fertugsaldri hefur greinst með kórónuveirusmit eftir ferðalag til Íslands og Bretlands. Hún sneri aftur til Perth í Vestur-Ástralíu á mánudaginn, eftir að hafa flogið um Dúbaí.
Frá þessu segir í ástralska fjölmiðlinum ABC, en það var RÚV greindi frá því fyrstur íslenskra miðla.
Talsmaður heilbrigðisyfirvalda í Vestur-Ástralíu segir ástand konunnar vera stöðugt og að hún sé nú í einangrun á heimili sínu.
„Hún gerði nákvæmlega það rétta í stöðunni og um leið og hún fann fyrir einkennum fór hún í sóttkví. Almenningi stafar ekki hætta af,“ segir Andrew Robertson, talsmaður heilbrigðisyfirvalda. Verið sé að rannsaka ferðir konunnar.
Alls hafa tveir aðrir frá Vestur-Ástralíu greinst með kórónuveirusmit. Er þar um að ræða hjón en eiginmaðurinn lést af völdum veirunnar um helgina. Þau smituðust bæði um borð í skemmtiferðaskipinu Diamond Princess.