Erlent

Lét þing­menn heyra það og sagði Evrópu ekki geta varið sig sjálfa

Samúel Karl Ólason skrifar
Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, vill að ráðamenni Evrópu reyni að halda Bandaríkjamönnum góðum.
Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, vill að ráðamenni Evrópu reyni að halda Bandaríkjamönnum góðum. EPA/GIAN EHRENZELLER

Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir að Evrópa geti ekki varið sig án Bandaríkjanna. Segja má að Rutte hafi látið Evrópuþingmenn heyra það á fundi varnar- og utanríkismálanefndar Evrópuþingsins í dag.

„Ef einhver heldur hér, að Evrópusambandið eða Evrópa í heild geti varið sig án Bandaríkjanna, látið ykkur dreyma áfram,“ sagði Rutte.

„Þið getið það ekki.“

Þá gagnrýndi hann hugmyndir um sameiginlegan evrópskan herafla og sagði að það myndi skapa mikil vandræði, auk þess sem Vladimír Pútín, forseti Rússlands, myndi elska það.

Rutte talaði einnig fyrir því að leiðtogar ESB leyfðu Úkraínumönnum að nýta níutíu milljarða evra lán frá bandalaginu meðal annars til að kaupa vopn frá Bandaríkjunum. Frakkar og aðrir hafa kallað eftir því að Úkraínumönnum verði gert að kaupa vopn frá ríkjum Evrópu, nema ekki sé hægt að fá þau þar eða þörfin sé mjög mikil.

Framferði Trumps og embættismanna hans hefur dregið úr vilja Evrópumanna til að kaupa hergögn og tækni frá Bandaríkjunum. Þetta er þróun sem byrjaði að sjást snemma í fyrra. Um tíu prósent af tekjum bandarískra hergagnaframleiðenda koma frá Evrópu.

Sjá einnig: Kvarta sáran yfir vopnakaupum Evrópu

Rutte lofaði Trump á fundinum í dag fyrir það að fá aðildarríki til að verja meira til varnarmála.

„Haldið þið í alvörunni að Spánn og Ítalía og Belgía og Kanada hefðu ákveðið að fara úr einu og hálfu prósenti [af landsframleiðslu] í tvö, án Trumps. Ekki séns.“

Hann sagði einnig að varnir Evrópu myndu kosta fúlgur fjár án Bandaríkjanna. Evrópumenn gætu gleymt því að halda sig við fimm prósent af landsframleiðslu, sem er nýja viðmið NATO. Án Bandaríkjanna þyrftu ríki Evrópu að fara í tíu prósent og þar að auki myndi það kosta milljarða á eftir milljörðum að koma upp þeim forvörnum sem Evrópa nýtur vegna kjarnorkuvopna Bandaríkjamanna.

Lofaði óvinsælan Trump

Eins og fram kemur í grein Politico fylgja ummæli Rutte á hæla þess að hann hefur kallað eftir því að ráðamenn í Evrópu haldi samskiptum sínum við Bandaríkjamenn á jákvæðum nótum. Hann hefur talað fyrir því að Bandaríkjamenn séu staðfastir meðlimir í NATO og þurfi jafnvel á bandalaginu að halda.

Það hefur hann sagt eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur ítrekað talað niður til annarra ríkja í NATO, krafist þess að NATO-ríki hjálpi sér að eignast Grænland og sagt ítrekað að önnur ríki bandalagsins myndu aldrei koma Bandaríkjunum til aðstoðar, svo eitthvað sé nefnt.

Sjá einnig: Sam­komu­lagið sem ekkert sam­komu­lag er um

Þá hefur hann einnig hótað bandalagsríkjum tollum vegna hótana hans í garð Grænlands og birt einkaskilaboð sem hann fékk frá þjóðarleiðtogum og Rutte.

Vegna þessa og annarra mála í forsetatíð Trumps hefur áhugi fyrir því að Evrópa auki sjálfstæði sitt frá Bandaríkjunum á hinum ýmsu sviðum aukist.

Ummæli Trumps og ítrekaðar hótanir hans í garð annarra ríkja í NATO eru þegar taldar hafa valdið bandalaginu miklum skaða, þar sem bandalagið byggi á því loforði að sé ráðist á eitt aðildarríki sé ráðist á þau öll.

Kostnaðarsamt og tímafrekt

Í grein Wall Street Journal segir að þó ráðamenn í Evrópu vilji auka sjálfstæði sitt og geta barist án Bandaríkjanna, þurfi þess í framtíðinni, eigi heimsálfan langt í land. Greinendur telja að ríki Evrópu hafi varið um 560 milljörðum dala í varnarmál í fyrra, sem er tvöföldun á áratug.

Til að mynda áætla sérfræðingar að það myndi kosta Evrópu um billjón dali (tólf núll) að skipta út þeim hergögnum og hermönnum sem Bandaríkjamenn eru með í Evrópu. Þá hafi vopnaframleiðendur í Evrópu takmarkaða getu til að framleiða ýmis vopn og hergögn eins og langdrægar eldflaugar og herþotur sem sjást verr á ratsjám.

Þá yrði það einnig mjög erfitt og tímafrekt fyrir ríki Evrópu að koma sér upp njósnagervihnöttum og öðrum búnaði til að bæta upplýsingaöflun.

WSJ hefur eftir Andrius Kubilius, embættismanni sem er yfir áætlun ESB um að auka hergagnaframleiðslu, að ef Bandaríkjamenn ætli að draga úr viðveru sinni í Evrópu eins og Trump-liðar hafa talað um, þurfi Evrópa að undirbúa hvernig byggja eigi það sem gjarnan er kallað „evrópskan burðarstólpa“ í NATO.

Hann nefndi sérstaklega njósnagervihnetti og annars konar upplýsingaöflun en á því sviði reiðir Evrópa gífurlega á Bandaríkin.

Framleiða brátt meira af sprengikúlum en Bandaríkjamenn

Sérfræðingar og forsvarsmenn hergagnaframleiðenda sem ræddu við WSJ segja sjálfbærniverkefni Evrópu þegar tiltölulega langt komið. Fjármagn sé nægjanlegt og það sama megi segja um starfsfólk. Þá sé einnig hægt að sjá miklar breytingar þegar kemur að stjórnsýslu og hergagnaframleiðslu. Skriffinnskan gangi mun hraðar fyrir sig.

Frederik Merz, kanslari Þýskalands, kallaði sérstaklega eftir því í Davos í síðustu viku að Evrópa gerði meira til að draga úr reglugerðum og skriffinsku.

Þýska fyrirtækið Rheinmetall hefur opnað, eða er að opna, sextán nýjar hergagnaverksmiðjur frá því í febrúar 2022, þegar Rússar gerðu innrásina í Úkraínu. Forsvarsmenn fyrirtækisins búast við því að geta brátt framleitt eina og hálfa milljón 155 mm sprengikúlur fyrir stórskotalið á ári. Það er meira en Bandaríkjamenn geta framleitt.

Starfsmönnum ítalska fyrirtækisins Leonardo hefur fjölgað um nærri því helming á einungis tveimur árum. Þeir eru nú 64 þúsund talsins.

Svipaða sögu er að segja af fyrirtækinu MBDA. Það getur nú framleitt um fjörutíu Mistral-flugskeyti fyrir loftvarnarkerfi á mánuði en áður var framleiðslugetan tíu.

Helstu vandamál Evrópu snúa að gervihnöttum, eins og áður hefur komið fram, og skotflaugum og langdrægum loftvarnarkerfum. Evrópa framleiðir svo gott sem engar skotflaugar og flest ríki Evrópu notast við PATRIOT-loftvarnarkerfi þegar kemur að því að verjast flugvélum og skotflaugum.

Það mun taka tíma að fylla upp í þær holur, ef svo má segja, en nokkur ríki eru byrjuð að vinna í því.


Tengdar fréttir

Rússar, Úkraínumenn og Bandaríkjamenn funda í fyrsta sinn við sama borð

Fulltrúar Rússlands, Úkraínu og Bandaríkjanna eru nú sagðir ætla að halda samningafund í Sameinuðu arabísku furstadæmunum um stríðið í Úkraínu og mögulegt vopnahlé. Fundurinn fer fram í dag og er um að ræða fyrstu viðræðurnar frá innrás Rússa fyrir hartnær fjórum árum þar sem Rússar og Úkraínumenn sitja við sama borð ásamt Bandaríkjunum.

„Við getum gert það sem við viljum“

Línur eru farnar að skýrast um innihald samkomulagsins sem náðist á fundi Marks Rutte, framkvæmdastjóra NATO, og Donalds Trump Bandaríkjaforseta í gær, þó enn sé margt á huldu. Forsetinn segir að Bandaríkin megi gera það sem þeim sýnist á Grænlandi „að eilífu.“ Enn er margt ófrágengið, að sögn heimildarmanna New York Times.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×