Síðasta leik dagsins í Lengjudeild karla lauk rétt í þessu. Afturelding og Keflavík skildu jöfn í Mosfellsbæ.
Ari Steinn Guðmundsson kom Keflvíkingum yfir eftir átta mínútna leik en Kári Steinn Hlífarson jafnaði fyrir Mosfellinga á 38. mínútu og var staðan 1-1 í hálfleik.
Joey Gibbs kom Keflvíkingum yfir að nýju á 49. mínútu og allt leit út fyrir að þeir myndu landa sigri þar til á 88. mínútu að Eyþór Aron Wöhler jafnaði fyrir Aftureldingu.
Lokatölur í leiknum 2-2 og er Keflavík á toppnum með 24 stig, jafnmörg stig og Fram en betri markatölu. Afturelding er í áttunda sætinu með tólf stig.