Lögregluþjónar vitjuðu þrettán skemmtistaða vegna sóttvarna og voru átta staðir til fyrirmyndar í þeim efnum. Meðal þeirra voru tveir tónlistarviðburðir sem báðir fóru vel fram.
Samkvæmt dagbók lögreglu voru aðstæður með öllu óviðunandi á tveimur stöðum. Of margir voru þar inni og ekki hægt að tryggja tveggja metra regluna. Starfsmönnum var gert að fækka gestum tafarlaust og dreifa þeim betur.
Á tveimur stöðum til viðbótar var nauðsynlegt að gera úrbætur á borðaskipan þar sem tveggja metra reglan var ekki virt. Einum stað til viðbótar var svo lokað vegna útrunnis rekstrarleyfis.