Á tímum samkomubanns og þegar öll íþróttamannvirki eru lokuð reyna allir að bjarga sér með mismunandi útfærsla á hreyfingu. Hrafnhildur Lóa Kvaran, sem býr í Árbænum í Reykjavík með fjölskyldu sinni æfir sund með sunddeild Ármanns fimm til sex sinnum í viku. Hún var orðin ómöguleg að komast ekki í sund en hún fann lausnina.
„Já, ég hugsaði bara að ég ætti nóg af afmælispeningum eftir og hringdi í frænku mína og við fórum saman í Costco og keyptum sundlaug. Þar æfi ég sundtökin, ég get ekki æft fótatökin vegna plássleysis en skriðsundstökin og bringustundatökin,“ segir Hrafnhildur Lóa.

En hvað finnst henni skemmtilegast við sundið?
„Það eru margar tegundir af sundi þannig að maður fær ekki leið á að synda bara eitt sund heldur getur maður alltaf skipt um sund. Ég er mjög spennt að geta mætt aftur í sund og ná þá almennilegum og löngum æfingum,“ segir Hrafnhildur Lóa brosandi.